Ánægðust með upphlutinn á yngstu dótturina
Solveig Pétursdóttir á Hofsósi tók áskorun frá Kristínu S. Einarsdóttur í þættinum Hvað ertu með á prjónunum? og sagði lesendum frá handavinnunni sinni í þættinunm í 47. tbl. ársins 2018. Áhugi Solveigar á handavinnu kviknaði snemma og hefur hún unnið að mörgum tegundum handverks í gegnum tíðina. Solveig segir að sér þyki gott að vera með nokkur verkefni í vinnslu sem hægt er að grípa í eftir því hvað hentar hverju sinni og þegar hún svaraði spurningum þáttarins var hún með tvær peysur á prjónunum, aðra símunstraða í fjórum litum sem hún sagði þurfa alla hennar athygli og hina einfalda úr mohair, þægilega til að grípa í við sjónvarpið. Þar til viðbótar voru eitt og annað hliðarverkefni í takinu svo sem heklaðar tuskur og fleira.
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?
Ég hef alltaf haft mjög gaman af alls konar handverki og sá áhugi vaknaði mjög snemma. Ég lærði mest hannnyrðir í grunnskóla en hef svo líka farið á mörg námskeið til að bæta við þekkinguna og prófa eitthvað nýtt, til dæmis bútasaum, leðursaum, taumálun og fleira. Ein jólin gerði ég til dæmis allar jólagjafirnar, þá málaði ég myndir á boli og handklæði og gaf, það var skemmtilegt verkefni og tóku bæði börnin og bóndinn þátt í því.
Ég var síðasta vetur grunnskólans í Varmahlíð þar sem Helga Friðbjörnsdóttir kenndi handmennt og þar lærði ég mikið. Verkefnin voru fjölbreytt, skemmtileg og krefjandi, til dæmis saumaði ég þar skírnarkjól sem hefur verið mikið notaður. Mér fannst það mjög skemmtilegt en man að ég var dálítið stressuð yfir því vegna þess að þetta var mikið saumað í höndunum og efnið í dýrari kantinum, silki og tjull sem saumað var í með gullþræði og vanda þurfti til verka. En Helga var frábær kennari og gott að læra hjá henni, hún var svo hvetjandi og ýtti svo sannarlega undir áhugann hjá mér á hannnyrðum.
Hvaða handavinnu þykir þér skemmtilegast að vinna?
Mér finnst öll handavinna skemmtileg og alltaf gaman að læra eitthvað nýtt. Ég hef undanfarið verið mest í prjónaskap, smitaðist algjörlega af sjalaveikinni og hef verið að prjóna nokkur sjöl. En þegar börnin voru lítil saumaði ég mjög mikið á þau og mig, þá voru efni ekki eins dýr og er í dag og það borgaði sig alveg að sauma fatnað frekar en að kaupa.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?
Ég er nýbúin að ljúka við heimferðasett á nýjasta barnabarnið sem verður líklega komið í heiminn þegar þessi grein birtist. Ég hef prjónað eða heklað ófá heimferðasettin, bæði fyrir mín börn og öll barnabörnin sem eru nú að verða fimm talsins, einnig hef ég gert sett fyrir nokkra aðra. Það er alltaf sérstök tilfinning sem fylgir því að prjóna á ófædd kríli.
Hvaða handverk sem þú hefur gert ert þú ánægðust með?
Ætli ég sé ekki ánægðust með upphlutinn sem ég saumaði á yngstu dótturina síðastliðinn vetur. Þá fór ég á námskeið hjá Helgu Sigurbjörnsdóttur á Sauðárkróki og naut handleiðslu hennar við saumaskapinn, það var alveg einstaklega gaman og fylgdi því svipuð tilfinning og þegar ég gerði skírnarkjólinn í grunnskóla. Það er eitthvað sérstakt við að vinna svona verkefni þar sem maður er að vinna með dýr efni og nánast allt unnið í höndunum, saumavélin ekki mikið notuð og allt gert eftir kúnstarinnar reglum.
Eitthvað sem þú vilt bæta við?
Það er virkilega ánægjulegt hvað handverk af ýmsum toga er vinsælt í dag. Það er mikil gróska í því og með tilkomu samfélagsmiðlanna hefur áhuginn aukist mikið, það eru margir skemmtilegir hópar í gangi á Facebook og þar er handverksfólk að hjálpast að og deila því sem það er að gera. Þannig fær maður endalaust innblástur og hvatningu og lærir eitthvað nýtt og skemmtilegt.
Þá finnst mér líka frábært hvað það eru margir sem eru að hanna íslenskar uppskriftir og lita garn, þar er alltaf að bætast í flóruna og úr mörgu að velja. Það eru líka margar góðar handavinnubúðir starfræktar í dag og standa sig vel í að þjónusta okkur handóða fólkið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.