Allar veiðar á villtum dýrum, skulu vera sjálfbærar

Í frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra er m.a. komið til móts við sérstakar þarfir veiðimanna sem bundnir eru við hjólastól. Mynd: Stjórnarráð.is/ Hugi Ólafsson.
Í frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra er m.a. komið til móts við sérstakar þarfir veiðimanna sem bundnir eru við hjólastól. Mynd: Stjórnarráð.is/ Hugi Ólafsson.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti fyrir helgi á Alþingi fyrir frumvarpi um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Um er að ræða heildarendurskoðun laga, sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og segir á vef stjórnarráðsins að í skýrslu nefndar um lagalega stöðu villtra fugla og spendýra frá apríl 2013, sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra, hafi ýmsar tillögur verið sem horft var til við gerð frumvarpsins.

Á stjornarradid.is kemur fram að umhverfi málaflokksins hafi tekið töluverðum breytingum frá því núverandi löggjöf tók gildi fyrir 25 árum, til að mynda með aukinni áherslu á umhverfis- og loftslagsmál, breyttum skuldbindingum Íslands á grundvelli alþjóðasamninga og fjölgun ferðamanna sem vilja skoða náttúru og dýralíf landsins.

Í færslu umhverfisráðuneytisins segir að meðal helstu áherslna í téðu frumvarpi sé aukin dýravernd og dýravelferð og alhliða vernd villtra fugla, villtra spendýra og helstu búsvæða þeirra. Eins sé kveðið á um lögfestingu válista vegna villtra fugla og villtra spendýra og að sérstakar stjórnunar- og verndaráætlanir verði gerðar fyrir alla helstu stofna og tegundir villtra dýra. „Ákvarðanir um vernd og veiðar byggi þannig á vísindalegum og faglegum forsendum, en gerð áætlananna verður samvinnuverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar og eiga þær að liggja til grundvallar ákvarðanatöku í málaflokknum.“

Þá er í frumvarpinu kveðið á um að allar veiðar á villtum dýrum, þ.m.t. hlunnindaveiðar, eigi að vera sjálfbærar en mælt er fyrir um virka veiðistjórnun og veiðieftirlit á landinu öllu og að tekið verði með markvissum hætti á tjóni sem villt dýr og fuglar valdi. Þá er þar komið til móts við sérstakar þarfir veiðimanna sem bundnir eru við hjólastól.

„Segja má að lögfesting stjórnunar- og verndaráætlana fyrir villta dýrastofna sé í raun hjartað í þessu frumvarpi og meginbreytingin frá gildandi lögum um þetta efni. Með gerð stjórnunar- og verndaráætlana er lagður mikilvægur grunnur að því að ávallt verði byggt á haldbærum, faglegum og vísindalegum upplýsingum við vernd, stýringu og stjórnun á stofnum villtra dýra. Á þeim aldarfjórðungi síðan lögin tóku gildi hefur margt tekið breytingum, ekki einungis í náttúrunni sjálfri heldur líka í afstöðu til nýtingar og umgengni við hana. Ég er sérstakur talsmaður þess að við leggjum vísindin að leiðarljósi í allri okkar ákvarðanatöku og þetta frumvarp er því kærkomin breyting á núgildandi lögum“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir