Áframhaldandi fornleifauppgröftur á Þingeyrum
Áfram heldur fornleifauppgröftur á Þingeyrum og í sumar stendur til að grafa í um þrjár vikur. Kom þetta fram í kvöldfréttum RÚV í síðustu viku. Uppgröftur hófst 10. ágúst og er hópurinn nú að nálgast klausturtímann eftir að hafa grafið í gegnum leifar yngri bygginga ofan á sjálfum klausturrústunum. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem leitar er eftir gerð handrita og bóka og segir Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við HÍ, sem stýrir uppgreftrinum.
Ekki er viðbúið að heillegar bækur og handrit muni finnast, frekar ummerki eftir bókagerðina sjálfa, sútun skinna og þess háttar. „Þetta voru nú kálfskinn mest, við leitum að dýrabeinum og þess háttar og svo náttúrulega ýmis konar leifum, litunarsteinum og öðru sem fylgdi þessu,“ segir Steinunn. Nú hefur þegar fundist leðurbútur sem Steinunn telur að gæti hafa verið utan um bók, innsiglishringur og nokkrar bænaperlur. Einnig borði með höfðaletri, eða gotnesku letri sem er eldra og telur Steinunn hann geta verið vísun í einhver biblíutexta.
Á Þingeyrum var rekið klaustur í meira en fjórar aldri og þar voru rituð og gefin út mörg af merkustu handritum Íslendinga, þar á meðal Flateyjarbók. Rannsaka á þá miklu ritmenningu og bókagerð sem fram fór í klaustrinu. Þingeyrarklaustur var gríðarstórt og Steinunn segir þau aðeins ná að grafa í litlum hluta rústanna í sumar en að þetta gæti orðið áratuga verkefni ef haldið yrði áfram stöðugt. „En við erum að gera okkur vonir um að geta verið hérna í nokkur ár, fimm ár kannski,“ segir Steinunn.
/SHV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.