Á forsendum byggðanna
Undanfarnar vikur og mánuði hef ég ferðast um Norðvesturkjördæmi og átt samtöl við fjölda fólks um þau mál sem brenna á íbúum landssvæðis sem nær allt frá Hvalfirði og í Fljótin í Skagafirði. Eins og gefur að skilja eru málin misjöfn, sums staðar brenna samgöngurnar heitast, annars staðar eru það atvinnumál, skólamál eða heilbrigðismál og þannig má lengi telja. Í jafn víðfeðmu kjördæmi eru ólíkar áherslur, það er viðbúið. En í mörgum þessara mála má finna sameiginlegan þráð; áhyggjur og óþol fyrir því að ákvarðanataka í stjórnsýslunni sé fjarlæg og endurspegli ekki nægjanlega vel aðstæður heimamanna.
Dæmi um þennan vanda má finna víða, stór og smá. Allt frá smásmygli eftirlitsaðila gjarnan vopnuðum óskiljanlegum evrópusambandsreglugerðum til flækju- og tafaferlis verklegra framkvæmda. Oft virðist sem embættismenn og pólitíkin með þeim séu harðákveðin í að einungis þeir sem hafa efni á harðsnúnum lögmönnum og þaulreyndum eyðublaðaútfyllurum geti hafið atvinnurekstur. Og allt þetta bras fer fram á suðvesturhorninu þar sem stofnanirnar sitja í hrönnum, hver ofan á annarri, hver um aðra þvera.
Sátt um nýtingu og vernd
Ég hef af því áhyggjur að þessi vandi fari vaxandi og smám saman myndist gjá á milli höfuðborgarbúa og okkar sem búum í landsbyggðunum. Einkum og sér í lagi vegna togstreitu um algera náttúrufriðun annars vegar og hins vegar um þarfir okkar sem búum úti á landi og þurfum og viljum nýta náttúruauðlindir með skynsamlegum hætti og um leið byggja upp þjónustu sem stenst einhvern samanburð við það sem í boði er á Reykjavíkursvæðinu. Því miður virðist stefna í að ekki sé hægt að stinga skóflu í jörð án þess að margra ára ferli hafi átt sér stað, sem gjarnan endar á því að skóflan er dæmd rangrar gerðar, amk ekki rétt á litinn.
Styrkur Sjálfstæðisflokksins er einkum sá að stefna hans er til þess fallin að skapa sátt í samfélaginu, meðal annars á milli ólíkra búsetusvæða. Í umræðu um náttúruvernd hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt áherslu á að nýting og vernd verði að haldast í hendur þannig að tryggt sé að bæði sjónarmið nái fram að ganga. Fyrir íbúa landsbyggðarinnar er þetta gríðarlega mikilvæg stefna. Í henni er fólgið fyrirheit um að hlustað sé eftir sjónarmiðum þeirra sem nýta auðlindirnar og vilja byggja upp atvinnurekstur og störf, jafnframt því að tryggt sé að sjónarmið sjálfbærni og náttúruverndar séu virt.
Hlutverk Sjálfstæðisflokksins
Ég gef kost á mér í 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Úr föðurhúsum hef ég það veganesti að hlutverk ríkisins sé að auðvelda og hvetja fólk til að bjarga sér og að eitt höfuðverkefni Sjálfstæðisflokksins sé að skapa sátt í samfélaginu þannig að hver og einn hafi nokkuð til síns máls og menn uni öðrum velgengni. Ég tel að í næstu kosningum muni mjög reyna á þetta hlutverk Sjálfstæðisflokksins, nóg virðist framboðið af átakasæknum og einstrengingslegum skoðunum og flokkum. Mínar áherslur hvíla á því að ákvarðanir sem snúa að lífskjörum okkar í kjördæminu eigi að taka á okkar forsendum, á forsendum byggðanna, en ekki einstrengingslegrar nálgunar fjarlægra embættismanna sem þurfa ekki að búa við afleiðingar ákvarðanna sinna.
Teitur Björn Einarsson
Höfundur er lögmaður og sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.