20 milljóna styrkur til flotbryggjugerðar í Drangey
Þrír styrkir renna til Skagafjarðar og einn í Húnavatnshrepp úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2021en þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu í vikunni grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2021.
Samtals er nú úthlutað 764 milljónum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og 807 milljónum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem gerir kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp innviði á ferðamannastöðum.
Eftirtalin verkefni fengu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á Norðurlandi vestra:
Drangeyjarferðir ehf – Flotbryggja í Drangey. Kr. 20.000.000,- styrkur til að endurgera steypta bryggju við Drangey og flotbryggju. Verkið er flókið þar sem það er verið að steypa í sjó. Búið er að koma fyrir steyputeinum og keðjum til að festa saman stóru steinana í fjörunni og þannig búið að gera allt klárt til að ljúka þessum þætti verksins. Verkefnið er að styrkja flotbryggjuna sjálfa og setja í hana hólf þannig að hún fljóti betur og stórauka þannig öryggi og aðgengi ferðamanna á þessum þekkta ferðamannastað.
Sveitarfélagið Skagafjörður - Ketubjörg - Aðgengi og öryggi ferðamanna. Kr. 1.361.260,- styrkur í undirbúnings- og hönnunarvinnu við Ketubjörg á Skaga. Markmiðið er að gera bílastæði, merkja svæðið betur, leggja göngustíga og gera öryggisráðstafanir við björgin. Verkefnið rímar vel við áherslur sjóðsins en það snýr að hönnun á aðstöðu til að bæta öryggi og aðgengi fyrir ferðamenn. Það er á áfangastaðaáætlun svæðisins.
Þórhildur María Jónsdóttir - Bætt aðgengi við flutningakláf á Skatastöðum. Kr. 1.322.000,- styrkur í fyrsta fasa, undirbúning- og hönnun á bættu aðgengi við kláfinn yfir Eystri-Jökulsá sem er annar tveggja slíkra, sem enn eru í notkun á landinu. Hann var settur upp árið 1856 og endurbyggður í núverandi mynd 1948. Verkefnið felst í bættu öryggi við kláfinn, bílastæði, göngustíg, upplýsingaskiltum og áningarstað. Verkefnið er til þess fallið að vernda og stýra umferð ferðamanna á veiku svæði og tónar því vel við áherslur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.
Þrístapar – lok framkvæmda. Kr. 51.500.000,- styrkur til að ganga frá aðkomuplani með grjótpollum, cortenstálhliði og girðingu, hellulögn og tilheyrandi jarðvinnu. Hlaða 23 m langan og 0,8 m háan vegg við áningarstaðinn, helluleggja áningarstað með náttúrusteini ásamt tilheyrandi jarðvinnu og frágangi. Helluleggja 140 m langan og 0,9 m breiðan göngustíg um minjasvæðið ásamt tilheyrandi jarðvinnu og frágangi. Setja upp fræðsluskilti með tilheyrandi festingum, jarðvinnu og frágangi.
Þá fengu þrjú verkefni á Norðurlandi vestra styrk úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða 2021-2023 en það voru:
Hvítserkur í Húnaþingi vestra– 18 milljónir vegna afmörkunar minjasvæðis, gerð göngustígs, fullnaðarhönnun og útfærslu.
Hegranesþing í Skagafirði – 1 milljón vegna verndunar minja og gróðurs.
Örlygsstaðir í Skagafirði – 9,3 milljónir vegna afmörkun minjasvæðis, gerð göngustígs, fullnaðarhönnun og útfærslu.
- - - - -
Heimildir: Skagafjörður.is, Húni.is og Stjórnarráðið.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.